kristinkrutt

Sunday, October 17, 2004

Pabbafrí

Jæja þá er ritarinn loksins kominn úr leyfi, en nú er síðasti dagur vetrarfrísins runninn upp og daglegt líf á næstu grösum. Ég er búin að hafa það voða gott síðustu viku því ég hef haft pabbastúfinn minn hjá mér og finnst mér alveg frábært þegar við erum saman öll þrjú í fjölskyldunni. Mamma og pabbi vildu endilega að ég héldi minni rútínu og mætti í leikskólann þessa viku því ég er svo nýlega byrjuð en þurfti nú aldrei að vera neitt lengi, frá tveimur og upp í fjóra tíma. Pabbi og mamma fóru bæði með mig og sóttu mig saman og það fannst mér voða gaman, gott fyrir pabba að sjá leikskólann minn og vita svona nokkurnveginn hvernig lífi ég lifi hérna í Danmörku, hitta kennarana mína og svona. Held að honum hafi litist voða vel á, en hann eins og góðum föður sæmir hefur nokkrar áhyggjur af því hvernig mér gangi að eignast vini svona hálfmállaus.
Við erum búin að gera okkur ýmislegt til skemmtunar milli þess sem við slöppum vel af, knúsumst og höfum það kósý. Höfum mikið gengið um bæinn, farið í grasagarðinn og gert heiðarlega tilraun til að veiða síli en afrakstur ekki mikill og kennum við slökum útbúnaði um. Farið í kanínugarðinn og gefið kanínum að borða með Elísabetu vinkonu minni og foreldrum hennar og var hægt að fara inn í búrið til þeirra og kom okkur mjög á óvart hversu gæfar þær voru (spurning um hvort þær séu það enn!).
Það kom pabba mjög á óvart hversu mikið honum fannst ég hafa þroskast á síðustu fimm vikum, stækkað nokkuð svo honum fannst hann þurfa að versla á mig svolítið a fötum, svo fannst honum mér hafa farið mikið fram í dönsku og svo kom ég honum sérstaklega mikið á óvart þegar ég fór að sýna honum hversu dugleg ég er að skrifa stafi og að ég geti orðið skrifað nafnið mitt.
Nú er pabbi að fara aftur í dag, fyrst þarf hann að fara í eina lest og eina flugvél og þá er hann kominn heim í Bogahlíðina og svo eftir fjórar vikur fer hann aftur í eina flugvél og eina lest og þá er hann kominn til mín aftur sem er náttúrlega alveg frábært!!!
Kossar og knús til ykkar frá mér, Kristín Arna krosssaumskerling ;-)

Sunday, September 26, 2004

Daglegt líf

Jæja þá er lífið loksins að komast í fastar skorður hjá okkur mæðgum, eða að minnsta kosti kominn vísir að föstum skorðum. Ég farin að mæta í leikskólann á hverjum degi og er síðastliðna viku búin að vera að meðaltali í um 4 klst á dag. Er bara nokkuð sæl og glöð í leikskólanum og kennurunum virðist fara nokkuð hratt fram í íslenskunni en það er markmið mitt að þær verði farnar að tala nokkuð skýrt og skiljanlega áður en ég fer heim í jólafrí! Ég hef gert þeim það ljóst að ég ætli mér ekki að læra dönsku (þó svo ég hafi samt nokkuð mikinn áhuga og æfi mig þegar engin heyrir til mín (t.d. á klósettinu, en þá er ágætt að æfa sig með því að telja fingur og tásur og tala við einu almennilegu manneskjuna á þessu einkennilega hrognamáli)). Meðan ég er í leikskólanum er mamma eitthvað að rembast við að læra en ég held satt að segja að henni gangi ekkert allt of vel á köflum, það er að minnsta kosti oft ansi hreint og fínt þegar ég kem úr leikskólanum svo hún er allavega ekki alltaf að gera það sem hún á að vera að gera. Þetta kemur samt allt með kalda vatninu, hún er að reyna svo þetta fer nú örugglega að ganga! Hún er samt voða ánægð í skólanum og finnst námsefnið skemmtilegt, en ég verð samt að viðurkenna að mér finnst algjör vitleysa í henni að vera að standa í þessu námsveseni, finnst bara að hún eigi að vera heima að hugsa um mig, baka og vera skemmtileg. Skil ekki hvað hún hefur áhuga á því að vera að spá í hegðun og líðan annars fólks og leiðir til að aðstoða fólk í vanda þegar hún getur verið að fást við svona stórbrotna og skemmtilega manneskju allan daginn heima hjá sér. Rökræði þetta við hana á hverjum degi en hún virðist ekki ætla að taka sönsum.
Jæja, þá eru bara tæpar tvær vikur í að pabbi komi og hlakkar okkur mömmu mikið til að hitta hann, við söknum hans alla daga en okkur finnst helgarnar erfiðastar, þá vantar okkur hann mjög til þátttöku í hinu og þessu sprellinu eða bara þegar við erum að hangsa og horfa út í loftið.
Við vorum bara að uppgötva að einungis aðrir bloggarar gátu skrifað okkur á síðunni og vorum að breyta þeirri stillingu svo við vonumst bara eftir að heyra frá ykkur eftir þessa leiðréttingu, ég hef nefninlega voða gaman af því þegar mamma les fyrir mig það sem fólk er að skrifa mér. Bið að heilsa í bili, ykkar Kristín Arna

Thursday, September 16, 2004

Loksins loksins

Jæja loksins loksins kemur eitthvað frá mér á ný, við mamma erum nefninlega búnar að gera víðreisn síðustu vikur, en við þurftum að skreppa aðeins til Íslands í byrjun mánaðarins til að kveðja afa Arnór en hann var búinn að vera mikið lasinn og ákvað að lokum að drífa sig í faðminn hennar langömmu uppi hjá Guði. Ég varð að vísu mjög sorgmædd þegar hann fór og vildi helst að ég gæti spjallað aðeins við hann í síma og skildi ekki alveg hvað væri svona flókið við það, en mamma segir að honum líði betur núna og svo geti fylgst betur með mér þarna uppi svo ég þurfi ekki að vera sorgmædd, en ég er ákveðin í að geyma hann í hjartanu mínu um ókomna tíð samt sem áður.
Það var nú voða gott að koma aðeins heim í Bogahlíðina í faðminn hans pabba og hitta Korra og Morra svo ég tali nú ekki um svo ég tali nú ekki um ömmurnar og afana mína sem eru þau bestu sem sem sögur fara af, af þeirri tegund fólks, eða það finnst mér að minnsta kosti. Við mamma vorum líka svo ótrúlega heppnar að fá ömmu Bjöggu með okkur út til Danmerkur og áttum við þrjár frábæran tíma hér saman þó ég leggði mig nú fram á köflum við að velgja móður minni aðeins undir uggum, en svona kveðjustundir sem hafa verið nokkuð tíðar síðastliðinn mánuð eru ekki það sem ég á hvað auðveldast að takast á við. Brýst út í mikilli stríðnisþörf og óþarfa commentum um eitt og annað misjafnlega viðkvæmt eins og mun á hljómfegurð radda eldra mæðgnasettsins sem hingað til hefur þótt mjög svipuð o.s.frv.
En haldiði að ég hafi ekki loksins byrjað á leikskólanum í dag, loksins loksins og er þetta nú í meira lagi skemmtilegur leikskóli verð ég að segja og fannst mér það óþarfa vesen að vera fara heim, hefði bara viljað vera þangað til á morgun ef satt skal segja. Þetta er nú líka frábært því þá getum við mamma hætt að þeytast um bæinn til að koma mér í pössun þegar hún á að mæta í skólann, en við eigum alveg frábæra að hér í Árósum sem hafa verið boðnir og búnir til að passa mig þegar við höfum þurft á að halda. Ég læt ykkur fljótlega vita betur hvernig hlutirnir þróast í leikskólanum á næstu dögum. Bið að heilsa í bili, kossar og knús Kristín krúttibolla

Sunday, August 29, 2004

Helgin

Jæja, við mamma erum búnar að vera ansi aktívar um helgina og hef ég skemmt alveg konunglega. Í gær fórum við í bæjarferð með Elísabetu vinkonu minni sem býr í sama húsi og ég og gerðum við margt okkur til skemmtunar, fórum og horfðum á leikrit og kíktum í stórt hoppukastalaland en þar sem var sko aldeilis hægt að leika sér og varð að múta mé með ís svo ég fengist heim. Svo buðum við nágrönnunum í mat og þar á meðal Elísabetu og Nikolai og lékum við okkur langt fram eftir. Svo sofnaði ég sjálf því mamma var með gesti og við erum alveg svaka stoltar af því.
Í dag fórum við svo í heimsókn til Kristínar og Hrafns og tókum við strætó til þeirra. Það er nú eitt af því skemmtilegasta sem ég geri þessa dagana. Finnst mjög áhugavert hvernig bílstjórarnir bera sig við aksturinn og hvort þeir séu ekki örugglega með hendur á stýrinu og svo frv. Okkur mömmu finnst nú voða gott að eiga Kristínu frænku og fjölskyldu hér í Árósum og ég tala nú ekki um hvað mér finnst hann Hrafn frændi minn mikið krútt. Eftir að hafa horft á dönsku stelpurnar verða ólympíumeistara í handbolta fór ég einmitt með hann krúttið og kynnti hann fyrir hoppukastalalandinu, svo ég fór tvisvar þangað þessa helgina. Svo hittum við danska Línu Langsokk sem mér fannst nú ekki næstum eins hress og skemmtileg og sú íslenska, hún var einhvernvegin öll daufari, líka háraliturinn meira að segja! Jæja nú ætla ég að fara að slappa svolítið af og kannski ég rifji aðeins upp kynnin við puttann minn og naflann eftir erilsama en skemmtilega helgi. Stórt faðm til ykkar allra en eitt alveg sérstakt til pabba, kveðja Kristín Arna

Thursday, August 26, 2004

Danmörk

Jæja þá er ég loksins komin til Danmerkur, þetta er nú eitthvað sem ég hef bæði verið að hlakka til og láta mig kvíða fyrir. Pabbi kom með mér og mömmu hingað út og erum við búin að eiga mjög góðan tíma hér saman. Við erum búin að fara skemmtigarð úr skemmtigarði og það er nú eitthvað sem ég kann vel að meta, að vísu er ég með svolítið hérahjarta svo það tekur mig svolítin tíma að venjast hverjum garði fyrir sig.
Við byjuðum á því að fara í Jyllands Zoo sem er voða skemmtilegur dýragarður ekki langt frá okkur og þar voru fjöldamargar dýrategundir sem ég var að sjá í fyrsta skipti, eins og ljón og kengúrur, sebrahestar, strútar, apar, slöngur og margar margar fleiri. Það sem mér fannst einna skemmtilegast við þennan dýragarð var að þar var hægt að kaupa núðlur og hnetur til að hæna dýrin að sér og verður að segjast að aparnir og asnarnir urðu alveg sérlegir vinir mínir, vespurnar að vísu líka en áhuginn ekki gagnkvæmur.
Svo erum við búin að fara í tívolí og Legoland sem mér fannst alveg rosa gaman. En eins og ég sagði áðan þá þarf ség samt svolítinn tíma að til að venjast tækjunum svo mamma og pabbi gerðu svolítil mistök í því að fara ekki af stað í garðana mjög snemma á morgnana, því við þurftum að hlaupa á milli tækjana rétt fyrir lokun þegar ég var orðin alveg örugg og farin að fíla mig í botn.
Ég er búin að eignast nokkrar vinkonur hérna, sem eru á svipuðum aldri og ég og mér finnst rosa skemmtilegar. Svo er ég komin með leikskólapláss á Klöverparken börnehave og er ég mjög sátt við það, en ég er búin að fara 2 sinnum að leika mér í garðinum þar og finnst hann alveg ævintýralega skemmtilegur, með litlum húsum fullum af dóti, stórum trjám og rólum og öðru skemmtilegu. Mamma er líka búin að fara í heimsókn og líst rosa vel á, mikið af dóti og fólkið sem vinnur þar notalegt.
Nú er pabbi farin aftur heim til Íslands og ég sakna hans mjög mikið, en það þarf nú einhver að passa Korra og Morra og Bogahlíðina fyrir mig. Svo ætla ég bara að vera dugleg að teikna handa honum myndir og hringja í hann svo hann svo að honum líði betur, því ég veit að hann saknar mín líka voða mikið. Jæja nú ætlum við mamma ekki að hafa þetta lengra í bili, bið að heilsa öllum.
Kossar og knús Kristín Arna