kristinkrutt

Sunday, August 29, 2004

Helgin

Jæja, við mamma erum búnar að vera ansi aktívar um helgina og hef ég skemmt alveg konunglega. Í gær fórum við í bæjarferð með Elísabetu vinkonu minni sem býr í sama húsi og ég og gerðum við margt okkur til skemmtunar, fórum og horfðum á leikrit og kíktum í stórt hoppukastalaland en þar sem var sko aldeilis hægt að leika sér og varð að múta mé með ís svo ég fengist heim. Svo buðum við nágrönnunum í mat og þar á meðal Elísabetu og Nikolai og lékum við okkur langt fram eftir. Svo sofnaði ég sjálf því mamma var með gesti og við erum alveg svaka stoltar af því.
Í dag fórum við svo í heimsókn til Kristínar og Hrafns og tókum við strætó til þeirra. Það er nú eitt af því skemmtilegasta sem ég geri þessa dagana. Finnst mjög áhugavert hvernig bílstjórarnir bera sig við aksturinn og hvort þeir séu ekki örugglega með hendur á stýrinu og svo frv. Okkur mömmu finnst nú voða gott að eiga Kristínu frænku og fjölskyldu hér í Árósum og ég tala nú ekki um hvað mér finnst hann Hrafn frændi minn mikið krútt. Eftir að hafa horft á dönsku stelpurnar verða ólympíumeistara í handbolta fór ég einmitt með hann krúttið og kynnti hann fyrir hoppukastalalandinu, svo ég fór tvisvar þangað þessa helgina. Svo hittum við danska Línu Langsokk sem mér fannst nú ekki næstum eins hress og skemmtileg og sú íslenska, hún var einhvernvegin öll daufari, líka háraliturinn meira að segja! Jæja nú ætla ég að fara að slappa svolítið af og kannski ég rifji aðeins upp kynnin við puttann minn og naflann eftir erilsama en skemmtilega helgi. Stórt faðm til ykkar allra en eitt alveg sérstakt til pabba, kveðja Kristín Arna

Thursday, August 26, 2004

Danmörk

Jæja þá er ég loksins komin til Danmerkur, þetta er nú eitthvað sem ég hef bæði verið að hlakka til og láta mig kvíða fyrir. Pabbi kom með mér og mömmu hingað út og erum við búin að eiga mjög góðan tíma hér saman. Við erum búin að fara skemmtigarð úr skemmtigarði og það er nú eitthvað sem ég kann vel að meta, að vísu er ég með svolítið hérahjarta svo það tekur mig svolítin tíma að venjast hverjum garði fyrir sig.
Við byjuðum á því að fara í Jyllands Zoo sem er voða skemmtilegur dýragarður ekki langt frá okkur og þar voru fjöldamargar dýrategundir sem ég var að sjá í fyrsta skipti, eins og ljón og kengúrur, sebrahestar, strútar, apar, slöngur og margar margar fleiri. Það sem mér fannst einna skemmtilegast við þennan dýragarð var að þar var hægt að kaupa núðlur og hnetur til að hæna dýrin að sér og verður að segjast að aparnir og asnarnir urðu alveg sérlegir vinir mínir, vespurnar að vísu líka en áhuginn ekki gagnkvæmur.
Svo erum við búin að fara í tívolí og Legoland sem mér fannst alveg rosa gaman. En eins og ég sagði áðan þá þarf ség samt svolítinn tíma að til að venjast tækjunum svo mamma og pabbi gerðu svolítil mistök í því að fara ekki af stað í garðana mjög snemma á morgnana, því við þurftum að hlaupa á milli tækjana rétt fyrir lokun þegar ég var orðin alveg örugg og farin að fíla mig í botn.
Ég er búin að eignast nokkrar vinkonur hérna, sem eru á svipuðum aldri og ég og mér finnst rosa skemmtilegar. Svo er ég komin með leikskólapláss á Klöverparken börnehave og er ég mjög sátt við það, en ég er búin að fara 2 sinnum að leika mér í garðinum þar og finnst hann alveg ævintýralega skemmtilegur, með litlum húsum fullum af dóti, stórum trjám og rólum og öðru skemmtilegu. Mamma er líka búin að fara í heimsókn og líst rosa vel á, mikið af dóti og fólkið sem vinnur þar notalegt.
Nú er pabbi farin aftur heim til Íslands og ég sakna hans mjög mikið, en það þarf nú einhver að passa Korra og Morra og Bogahlíðina fyrir mig. Svo ætla ég bara að vera dugleg að teikna handa honum myndir og hringja í hann svo hann svo að honum líði betur, því ég veit að hann saknar mín líka voða mikið. Jæja nú ætlum við mamma ekki að hafa þetta lengra í bili, bið að heilsa öllum.
Kossar og knús Kristín Arna