kristinkrutt

Sunday, September 26, 2004

Daglegt líf

Jæja þá er lífið loksins að komast í fastar skorður hjá okkur mæðgum, eða að minnsta kosti kominn vísir að föstum skorðum. Ég farin að mæta í leikskólann á hverjum degi og er síðastliðna viku búin að vera að meðaltali í um 4 klst á dag. Er bara nokkuð sæl og glöð í leikskólanum og kennurunum virðist fara nokkuð hratt fram í íslenskunni en það er markmið mitt að þær verði farnar að tala nokkuð skýrt og skiljanlega áður en ég fer heim í jólafrí! Ég hef gert þeim það ljóst að ég ætli mér ekki að læra dönsku (þó svo ég hafi samt nokkuð mikinn áhuga og æfi mig þegar engin heyrir til mín (t.d. á klósettinu, en þá er ágætt að æfa sig með því að telja fingur og tásur og tala við einu almennilegu manneskjuna á þessu einkennilega hrognamáli)). Meðan ég er í leikskólanum er mamma eitthvað að rembast við að læra en ég held satt að segja að henni gangi ekkert allt of vel á köflum, það er að minnsta kosti oft ansi hreint og fínt þegar ég kem úr leikskólanum svo hún er allavega ekki alltaf að gera það sem hún á að vera að gera. Þetta kemur samt allt með kalda vatninu, hún er að reyna svo þetta fer nú örugglega að ganga! Hún er samt voða ánægð í skólanum og finnst námsefnið skemmtilegt, en ég verð samt að viðurkenna að mér finnst algjör vitleysa í henni að vera að standa í þessu námsveseni, finnst bara að hún eigi að vera heima að hugsa um mig, baka og vera skemmtileg. Skil ekki hvað hún hefur áhuga á því að vera að spá í hegðun og líðan annars fólks og leiðir til að aðstoða fólk í vanda þegar hún getur verið að fást við svona stórbrotna og skemmtilega manneskju allan daginn heima hjá sér. Rökræði þetta við hana á hverjum degi en hún virðist ekki ætla að taka sönsum.
Jæja, þá eru bara tæpar tvær vikur í að pabbi komi og hlakkar okkur mömmu mikið til að hitta hann, við söknum hans alla daga en okkur finnst helgarnar erfiðastar, þá vantar okkur hann mjög til þátttöku í hinu og þessu sprellinu eða bara þegar við erum að hangsa og horfa út í loftið.
Við vorum bara að uppgötva að einungis aðrir bloggarar gátu skrifað okkur á síðunni og vorum að breyta þeirri stillingu svo við vonumst bara eftir að heyra frá ykkur eftir þessa leiðréttingu, ég hef nefninlega voða gaman af því þegar mamma les fyrir mig það sem fólk er að skrifa mér. Bið að heilsa í bili, ykkar Kristín Arna

Thursday, September 16, 2004

Loksins loksins

Jæja loksins loksins kemur eitthvað frá mér á ný, við mamma erum nefninlega búnar að gera víðreisn síðustu vikur, en við þurftum að skreppa aðeins til Íslands í byrjun mánaðarins til að kveðja afa Arnór en hann var búinn að vera mikið lasinn og ákvað að lokum að drífa sig í faðminn hennar langömmu uppi hjá Guði. Ég varð að vísu mjög sorgmædd þegar hann fór og vildi helst að ég gæti spjallað aðeins við hann í síma og skildi ekki alveg hvað væri svona flókið við það, en mamma segir að honum líði betur núna og svo geti fylgst betur með mér þarna uppi svo ég þurfi ekki að vera sorgmædd, en ég er ákveðin í að geyma hann í hjartanu mínu um ókomna tíð samt sem áður.
Það var nú voða gott að koma aðeins heim í Bogahlíðina í faðminn hans pabba og hitta Korra og Morra svo ég tali nú ekki um svo ég tali nú ekki um ömmurnar og afana mína sem eru þau bestu sem sem sögur fara af, af þeirri tegund fólks, eða það finnst mér að minnsta kosti. Við mamma vorum líka svo ótrúlega heppnar að fá ömmu Bjöggu með okkur út til Danmerkur og áttum við þrjár frábæran tíma hér saman þó ég leggði mig nú fram á köflum við að velgja móður minni aðeins undir uggum, en svona kveðjustundir sem hafa verið nokkuð tíðar síðastliðinn mánuð eru ekki það sem ég á hvað auðveldast að takast á við. Brýst út í mikilli stríðnisþörf og óþarfa commentum um eitt og annað misjafnlega viðkvæmt eins og mun á hljómfegurð radda eldra mæðgnasettsins sem hingað til hefur þótt mjög svipuð o.s.frv.
En haldiði að ég hafi ekki loksins byrjað á leikskólanum í dag, loksins loksins og er þetta nú í meira lagi skemmtilegur leikskóli verð ég að segja og fannst mér það óþarfa vesen að vera fara heim, hefði bara viljað vera þangað til á morgun ef satt skal segja. Þetta er nú líka frábært því þá getum við mamma hætt að þeytast um bæinn til að koma mér í pössun þegar hún á að mæta í skólann, en við eigum alveg frábæra að hér í Árósum sem hafa verið boðnir og búnir til að passa mig þegar við höfum þurft á að halda. Ég læt ykkur fljótlega vita betur hvernig hlutirnir þróast í leikskólanum á næstu dögum. Bið að heilsa í bili, kossar og knús Kristín krúttibolla