kristinkrutt

Sunday, October 17, 2004

Pabbafrí

Jæja þá er ritarinn loksins kominn úr leyfi, en nú er síðasti dagur vetrarfrísins runninn upp og daglegt líf á næstu grösum. Ég er búin að hafa það voða gott síðustu viku því ég hef haft pabbastúfinn minn hjá mér og finnst mér alveg frábært þegar við erum saman öll þrjú í fjölskyldunni. Mamma og pabbi vildu endilega að ég héldi minni rútínu og mætti í leikskólann þessa viku því ég er svo nýlega byrjuð en þurfti nú aldrei að vera neitt lengi, frá tveimur og upp í fjóra tíma. Pabbi og mamma fóru bæði með mig og sóttu mig saman og það fannst mér voða gaman, gott fyrir pabba að sjá leikskólann minn og vita svona nokkurnveginn hvernig lífi ég lifi hérna í Danmörku, hitta kennarana mína og svona. Held að honum hafi litist voða vel á, en hann eins og góðum föður sæmir hefur nokkrar áhyggjur af því hvernig mér gangi að eignast vini svona hálfmállaus.
Við erum búin að gera okkur ýmislegt til skemmtunar milli þess sem við slöppum vel af, knúsumst og höfum það kósý. Höfum mikið gengið um bæinn, farið í grasagarðinn og gert heiðarlega tilraun til að veiða síli en afrakstur ekki mikill og kennum við slökum útbúnaði um. Farið í kanínugarðinn og gefið kanínum að borða með Elísabetu vinkonu minni og foreldrum hennar og var hægt að fara inn í búrið til þeirra og kom okkur mjög á óvart hversu gæfar þær voru (spurning um hvort þær séu það enn!).
Það kom pabba mjög á óvart hversu mikið honum fannst ég hafa þroskast á síðustu fimm vikum, stækkað nokkuð svo honum fannst hann þurfa að versla á mig svolítið a fötum, svo fannst honum mér hafa farið mikið fram í dönsku og svo kom ég honum sérstaklega mikið á óvart þegar ég fór að sýna honum hversu dugleg ég er að skrifa stafi og að ég geti orðið skrifað nafnið mitt.
Nú er pabbi að fara aftur í dag, fyrst þarf hann að fara í eina lest og eina flugvél og þá er hann kominn heim í Bogahlíðina og svo eftir fjórar vikur fer hann aftur í eina flugvél og eina lest og þá er hann kominn til mín aftur sem er náttúrlega alveg frábært!!!
Kossar og knús til ykkar frá mér, Kristín Arna krosssaumskerling ;-)